Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 305/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 305/2023

Miðvikudaginn 4. október 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. maí 2023 þar sem samþykkt var að kærandi uppfyllti skilyrði örorkulífeyris og tengdra greiðslna með gildistíma frá 1. júlí 2023 til 30. júní 2025.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur verið með örorkumat frá Tryggingastofnun ríkisins í gildi frá 1. júlí 2013. Með rafrænni umsókn, móttekinni 25. apríl 2023, sótti kærandi um endurmat á örorku. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. maí 2023, var umsókn kæranda samþykkt fyrir tímabilið 1. júlí 2023 til 30. júní 2025. Með tölvupóstum 8. og 17. maí 2023 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi, dags. 30. maí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. júní 2023. Með bréfi, dags. 16. júní 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. júlí 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júlí 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 21. september 2023 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. september 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að í lok árs X hafi kærandi orðið öryrki eftir alvarlegt [slys], fyrir slysið hafi hann verið í góðri stöðu í lífinu og hafi borgað hátekjuskatt.

Líf kæranda hafi ekki verið það sama eftir slysið, hann sé með þrjú „krónísk“ brjósklos í mjóbaki. Kærandi hafi fengið blóðtappa í fótlegg 2015 og í framhaldinu hafi hann fengið hjartsláttaróreglu, vandamál með blóðþrýsting og muni hann alltaf þurfa að taka þrjú lyf vegna þess. Kærandi sé einnig með Ryder heilkenni sem hann hafi verið greindur með X ára. Vinstra hnéð sé stórskemmt, fyrir 2 mánuðum hafi verið tekin mynd sem hafi sýnt versnandi stöðu þess. Auk þess eigi kærandi við þunglyndi að stríða og sé í erfiðleikum með að sætta sig við það líf sem hann hafi þurft að lifa.

Kærandi hafi verið að reyna að vinna, hann sé í 50% starfi hjá [fyrirtæki], reyndar komi frá 80% fram á samningi við Vinnumálastofnun sem eigi eftir að leiðrétta, yfirmenn hans geti staðfest 50% starfshlutfall sökum líkamlegra veikinda.

Kærandi hafi farið í endurmat hjá Tryggingastofnun og hafi einungis fengið tvö ár í stað fimm ára eins og vanalega. Eftir að hafa þurft að ganga á eftir rökstuðningi hafi hann verið lélegur og auk þess fullur af fordómum. Þar sé gert lítið úr veikindum kæranda, talað um „einkenni“ og að aðalmálið væru andleg veikindi. Það sem standi upp úr sé að honum sé refsað fyrir að reyna að vinna, það sé dregið af bótum hans. Kærandi viti ekki hversu lengi hann geti unnið, en kærandi viti að þau veikindi sem hrjái hann fari aldrei héðan af.

Kærandi mótmæli bæði því viðmóti því sem hann hafi mætt við beiðni hans um rökstuðning og fyrst og fremst þeirri refsingu sem honum sé veitt sökum þess að hann sé að stunda hlutastarf. Vert sé að benda á að hann hafi þurft að fá nýjan lækni til að gera matið. Það sé mjög erfitt að komast að hjá læknum í dag og það sé hreint út sagt illskiljanlegt miðað við álagið á kerfinu að svona stutt mat sé gefið út, sérstaklega í ljós þess að um langvarandi og óafturkræf veikindi sé að ræða.

Eftir endurhæfingu, án bata á göngugetu og verkjum í mjóbaki, hafi kærandi farið til þáverandi yfirlæknis bæklunarskurðdeildar Landspítalans. Í segulómmynd hafi þrjú brjósklos í mjóbaki komið í ljós. Nokkrum árum síðar hafi ný mynd verið tekin sem hafi sýnt óbreytt ástand. Læknir hafi sagt honum að ekki væri hægt að laga þessi brjósklos með aðgerð og þurfi hann því að reyna að lifa með þeim. Kærandi hafi gert það og hafi reynt allt í sínu valdi til að ná bata og það hafi að einhverju leyti tekist en lykilatriði hafi verið að reyna að ganga sem mest.

Kærandi hafi farið í bráðaaðgerð á fótlegg 2015 vegna blóðtappa og hafi brjósklosin þá farið að hrjá hann meira en vanalega. Kærandi hafi ekki getað gengið lengi og eftir standi að einungis ein af þremur æðum neðst í vinstri fæti sé virk og kálfavöðinn hangi og valdi honum stundum verkjum. Þegar orsök blóðtappans hafi verið könnuð hafi komið í ljós gáttatif og aukaslög frá slegli. Í dag sé hann á blóðþynningu, blóðþrýstingslyfi og „beta blokker“.

Í framhaldinu hafi vinstra hnéð verið verkjað sem hafi valdið skertri göngugetu. Myndir sem síðast hafi verið teknar í maí sýni skemmd í hné og að það hafi versnað umtalsvert. Á árinu 2016 hafi hann verið greindur með […] og í sömu viku hafi X ára sonur hans verið […]. 

Kærandi hafi verið lagður inn á spítala X eða X með ofur bólginn ökkla án neinnar ástæðu. Eftir rannsóknir hafi hann verið greindur með Ryders heilkennið og hafi farið í meðferð hjá gigtarlækni. Þetta heilkenni sé „krónískt“ en hrjái hann ekki mikið í dag, hann fái örsjaldan bólgur í liðamót sökum þessa.

Kærandi sé með þunglyndisgreiningu sem hann tengi fyrst og fremst við hans aðstæður og sé alls ekki aðalatriðið í hans örorku eins og rökstuðningur hafi bent til.

Eins og sjáist hér að framan eigi kærandi við ýmsa kvilla að stríða en hann vilji samt reyna að vinna eitthvað og sé hann því á starfssamningi öryrkja við vinnuveitanda og Vinnumálastofnun þar sem hann vinni eins og hann geti, mætingarskylda sé lítil og oft geti hann unnið að heiman, enda snúist vinnan fyrst og fremst um […]. 

Það sé ljóst að líkamlega komi kærandi aldrei til með að ná sér að fullu, enda orðinn X ára, en það þýði ekki að hann geti ekki reynt að taka þátt í samfélaginu með þeirri vinnu sem hann geti þó sinnt. Það sé því einfaldlega rangt í grunninn að nota atvinnuþátttöku hans til þess að skerða rétt hans til örorkubóta umfram það sem tekjuskerðingar geri í kerfinu í dag. Kærandi sé ekki að fara fram á að hann fái einhverju sérmeðferð, en það sé erfitt fyrir fyrirtæki til lengri tíma að fá einungis vilyrði fyrir tveggja ára atvinnuþátttöku hans í einu. 

Fyrst og fremst eigi ekki að refsa öryrkjum fyrir að reyna vinna, það geti bara ekki verið eðlilegt á neinn hátt og því sé farið fram á að fá eðlilega framlengingu á bótarétti, eða í það minnsta fimm ár eins og tíðkast hafi í hans tilfelli.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram kærð sé tímalengd örorkumats við endurmat 75% örorku, þ.e. að gildistími örorkumats hafi verið ákvarðaður í tvö ár.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 24. og 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. breytingalög nr. 18/2023, þeim sem séu metnir til að minnsta kosta 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 27. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Í 45. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfa að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um endurmat örorku með umsókn 25. apríl 2023. Með örorkumati, dags. 2. maí 2023, hafi kærandi verið metinn til [75%] örorku fyrir tímabilið 1. júlí 2023 til 30. júní 2025, þ.e. í tvö ár frá lokum síðasta örorkumats.

Óskað hafi verið eftir rökstuðningi fyrir tímalengd örorkumatsins með tölvupóstum 8. og 17. maí 2023 sem hafi verið svarað með bréfi, dags 30. maí 2023.

Kærandi hafi verið metinn til 75% örorku frá 1. júlí 2013 og séu eldri gögn varðandi hann fyrirliggjandi hjá úrskurðarnefndinni vegna kærumáls nr. 43/2015 sem hafi lokið með því að Tryggingastofnun hafi samþykkt að breyta upphafsdegi fyrsta örorkumats úr 1. ágúst 2013 í 1. júlí 2013.

Við örorkumat lífeyristrygginga 2. maí 2023 hafi legið fyrir umsókn, dags. 25. apríl 2023, læknisvottorð B, dags. 21. mars 2023, og læknisvottorð C, dags. 30. mars 2023.

Í læknisvottorði, dags. 21. mars 2023, komi fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu disturbance of activity and attention, recurrent depressive disorder, current episode mild, mixed and other personality disorder. Í læknisvottorði, dags. 30. mars 2023, komi fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu svefntruflun, artrial fibrillation and flutter, deep vein thombosis of lower extr., hné, innra brengl og brjósklos í baki. Um geðrænan vanda auk einkenna frá stoðkerfi og æðakerfi sé því að ræða.

Við yfirferð á máli kæranda hafi komið í ljós að hann væri í 80% vinnu á starfssamningi og að hann hafi nú launatekjur. Litið hafi verið svo á að um tilraun til vinnu væri að ræða og hafi þótt rétt að endurskoða málið að tveimur árum liðnum.

Tryggingastofnun telji að örorkumat kæranda hafi réttilega verið haft styttra að þessu sinni vegna þess að nú sé um launatekjur að ræða og því væri færniskerðing kæranda hugsanlega minnkandi. Rétt hafi verið talið að hafa örorkumatstímabilið styttra til að hægt væri að fylgjast með því við næsta endurmat hvort ástæða væri til breytingar á örorkumatinu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. maí 2023 þar sem gildistími örorkumats kæranda var ákvarðaður frá 1. maí 2023 til 30. júní 2025. Kærandi fer fram á að gildistími örorkumatsins verði ákvarðaður fimm ár.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. og 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli, sem fjallað er um í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð C, dags. 30. mars 2023, þar sem koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„SVEFNTRUFLUN

ATRIAL FIBRILLATION AND FLUTTER

DEEP VEIN THROMBOSIS OF LOWER EXTR.

HNÉ, INNRA BRENGL

BRJÓSKLOS Í BAKI“

Um fyrra heilsufar segir:

„ENDURMAT Á ÖRORKU.

Sjá fyrri umsóknir um örorku. Lítið sem ekkert breyst í líkamlegri og andlegri heilsu A síðan síðast var sótt um og samþykkt 100% örorka. Var áður fyrr á endurhæfingalífeyri í lengri tíma.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu segir:

„X ára maður með sögu um krítíska ískemíu í vi.ganglim, afib, háþrýsting, bakverk (ítrekuð brjósklos) og reaktívan arthritis verið á örorku í lengri tíma í kjölfar alvarlegs [slys] fyrir X árum síðan sem gjörbreytti lífi hans til frambúðar. Var mjög virkur fyrir slysið með virtan og krefjandi starfscareer og góðar tekjur. Miklir stoðkerfisverkir síðan og andleg vanliðan. Er í eftirliti geðlæknis (B, sem hefur einnig sent inn gögn). Helstu vandamál í dag eru eftirfarandi:

1. Heilaþoka - versnandi með tímanum, ólíkur sér. Fundist hann detta út í miðjum samtölum þar sem hann missir hugsunina. Minntist á þetta við geðlækni sinn B í vikunni og hann tók hann í minnispróf sem kom eðlilega út. Neitar nýlegum veikindum en játar því að vera undir streitu. Sífellt með áhyggjur sérstaklga núna þegar komið er að endurmati örorku.

Blóðprufur sýna enga augljósa skýringu.

2. Verkur í vi. ganglim - Verkur í vi. kálfa. Verið með verki í vi.hné í langan tíma. .

"Verið að finna fyrir verk í vi hné s.l. 2 mán. Er með skertan vöðvastyrk í fætinum eftir aðgerð vegna blóðtappa.Sakleysileg skoðun á hnéinu. Stabilt, væg eymsli við fulla flexion."

MRI 2017 sýndi: Lækkun á liðbrjóski í patellofemoral liðnum og byrjandi slitbreytingar. Patellan situr eðlilega. Retinaculum patellae er að sjá eðlilegt. Það er vægt aukinn vökvi í hnénu. Krossbönd og collateral ligament eru að sjá heil. Laterali liðþófi er að sjá eðlilegur. Væg trosnun er á framhorni mediala liðþófa. Byrjandi osteophytamyndun medialt og anteriort á femur. Væg trosnun er á afturhorni liðþófans og linear breyting þar en ekki að sjá rifu með vissu. Bólga er meðfram mediala collaterala ligamentinu og nokkur beinbjúgur í tibia liðfletinum medialt og anteriort. Niðurstaða: Byrjandi slitbreytingar með dálitlum beinbjúg medialt í hnénu. Trosnaður mediali liðþófi en ekki að sjá ákveðnar rifur. Einnig er nokkuð slit í patellofemoral lið.

Lýsir nú versnandi verk niður vi.kálfa en segist ekki trúa því það tengist hnénu. Vill láta kanna betur. Fékk blóðtappa í fótinn 2015. Í nótu æðakírúgs í árseftirliti stendur:

"Hann spyr um holu við neðri skurðbrún á innanverðum kálfa. Telur að einhver hluti af vöðva hafi verið fjarlægður. Ég upplýsi um að farið sé á milli vöðva og beins þarna og í gegnum fasciu. Vöðvinn sé alveg heill en hafi líklega fallið aðeins frá beininu við það að fascian hafi verið skorin í sundur. Þetta útlit sé því væntanlega varanlegt. "

Segist ekki geta stundað neina hreyfngu að ráði vegna verkja í kálfanum, var gjarn að labba og njóta göngutúra en fær nú verk eftir nokkra m labb. Er einnig með sögu um þrjú brjósklos og hefur þyngst mikið undanfarið vegna hreyfingaleysis.

Fáum ómun af æðum í fótlegg sem sýnir eðl blóðflæði.

Á misslæma daga, segist vera stabíll. Alltaf með verk í mjóbaki og hálsi, fær reglulega höfuðverki. Slæmir verkir í fætinum eins og lýst er að ofan. Hættur að geta notið þess að fara í göngutúra. Þyngdaraukning með hverju ári. Sjúkraþjálfun on/off lítið hjálpað. Suma daga á hann erfitt með að fara fram úr rúmi sökum verkja. Nú einnig einbeitingatruflanir, heilaþoka, minnkað úthald og þrek. Tekur svefnlyf við svefntruflunum.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir:

„Glaðlegur og kemur vel fyrir líkt og áður. Heldur augnkontakti og þræði eðl í samtali. Er í yfirþyngd. Stirður í hreyfingum. Mikil þreifieymsli posteriort og proximalt við kálfa og medialt við patellu. Vagus og valgus stress test neikvætt. Eðl kraftar í ganglium og skyn. Taugaskoðun eðl. Þreifieymsli yfir lendhrygg og skert hreyfigeta í flexion/extions um mjaðmalið. Þreifieymsli yfir hálshrygg, aumustu punktar paraspinalt hæ. meginn við hálshrygg proximalt, skert hreyfigeta í lat rotation í báðar áttir. Hjartahlustun sýnir s1+s2 án auka og óhljóða, óreglulega óreglulegir radialis púlsar.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni aukist. Um nánara álit á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:

„Horfur eru slæmar enda lítill bati á hans líkamlegum og andlegum kvillum. Er stabíll, ekki versnandi. Jákvæður maður en raunsær. Reynir sitt besta.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 21. mars 2023. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„Disturbance of activity and attention

Recurrent depressive disorder, current episode mild

Mixed and other personality disorders“

Um heilsuvanda og færniskerðingu segir meðal annars:

„Hann er með athyglisbrest og nokkuð þunglyndisdýfur inn á milli kannski 20 -30% af árinu. Hann er að vinna 80% á vinnstaðasamning, D, [fyrirtæki] en þetta er í gengum starfssamningi vegna örorku og mikið tekið tillit til hans aðstæðna. Þetta er ákveðið öryggi að vera á örorku áfram og hann þarf hana áfram sem bakhjarl. Ekki vinnufær á almennum markaði. Það kemur síðan sennilega vottroð frá heimilislækni líka.“

Í læknisvottorðinu kemur fram það mat B að færni kæranda muni ekki aukast, í nánara áliti á vinnufærni segir:

„Hann er ekki líklegur til að fara af örorku í framtíðinni en mjög gott fyrir hann að hafa þennan vinnustaðasamning i gengum TR. Það er besta endurhæfinging sem hann getur verið í dag og hann er sáttur þarna og hef margt fram að færa er skapandi.“

Í læknisvottorði E, dags. 14. júní 2018, koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„LUMBAGO-ISCHIAS

DEEP VEIN THROMBOSIS OF LOWER EXTR.

DEPRESSIO MENTIS“

Um heilsuvanda og færniskerðingu segir:

„Miklir bakverkir og hreyfiskerðing yfir lendhrygg og hefur ástandið versnað síðustu ár.. Miklir verkir í vi. hné sem og vi. fótlegg.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. október 2015 og að ekki megi búast við að færni muni aukast. Í athugasemdum segir:

„Ástandið hefur versnað síðustu ár. Í október 2016 fekk hann blóðtappa í vi. fót. Gerðir voru 2x skurðir vegna þessa annar í nára og hinn í kálfa. Varanlega skert tilfinning í vi. fæti. Ein af þrem æðum virk í kálfa og hangir kálfavöðvinn niður. Fær stundum verki í vi. fótleg og missir kraft. 15.09.2017 fer A á BMT/LSH vegna mikilla vekja og bólgu vi. þumli og vi. hné. Í framhaldinu kemur í ljós skemmd á liðþófa og verið er að íhuga liðskipti. Er oft með verki í liðamótum eftir langar setur sem hann getur illa vegna bakverkja og eftir svefn. Líklegast Reiters og er í þessum skifuðu orðum að bíða eftir að komast til gigtarlæknis. Fyrir ári síðan greindist A með […] og sonur greindist á svipuðum tíma með […] og hefur A staðið í ströngu með syni sínum sem hefur haft mikil andleg áhriff sbr vottorð B, geðlækni (sendir sjálfur það vottorð). Einnig hefur A verið með verki í nára og eistum undanfarna sjö mánuði og er á leið í meðferð hjá F, þvagfæraskurðlækni á næstunni en ekki er vitað hvað veldur. Einnig er A með þrjú brjósklos sem ekki er hægt að skera skv G vegna mikilla bólgna við mænu eftir umferðarslys X. Líkamlegt ástand hefur ekki batnað heldur versnað töluvert frá útgáfu fyrra örorkumats. Gáttatif og erfiðleikar við áreynslu og er í eftirlit hjá H, cardiolog og er á Kovar.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Fyrir liggur að kærandi hefur verið metinn með 75% örorku frá árinu 2013. Sem fyrr segir kemur fram í læknisvottorði B að kærandi sé greindur með truflun á vikni og athygli, endurtekna geðlægðarröskun, yfirstandandi lota væg og blandnar og aðrar persónuraskanir og að það sé mat hans að ekki megi búast við að færni kæranda aukist. Auk þess kemur fram í læknisvottorði C að kærandi sé greindur með svefntruflun, gáttatif og -flökt, bláæðabólgu og segabláæðabólgu í öðrum djúplægum æðum neðri útlima, hné innra brengl og brjósklos í baki. Það er mat C að horfur séu slæmar, enda lítill bati á líkamlegum og andlegum kvillum. 

Hvorki í lögum um almannatryggingar né reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat er fjallað um það hvernig gildistími örorkumats skuli ákvarðaður eða hvaða sjónarmið skuli lögð til grundvallar þegar hann er ákvarðaður. Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri og eðli máls samkvæmt tímalengd mats einnig. Að mati úrskurðarnefndar hefur Tryggingastofnun því nokkurt svigrúm við mat á gildistíma örorkumats en matið verður þó að byggja á málefnalegum sjónarmiðum.

Fyrir liggur að gildistími hins kærða örorkumats var ákvarðaður frá 1. júlí 2023 til 30. júní 2025 eða í tvö ár. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var fyrsta örorkumat kæranda frá 2. júlí 2015 ákvarðað aftur í tímann og til rúmlega tveggja ára samtals, örorkumat frá 7. september 2015 var ákvarðað til þriggja ára og örorkumat frá 20. júní 2018 ákvarðað til fimm ára. Samkvæmt gögnum málsins taldi Tryggingastofnun ástæðu til að hafa gildistíma hins kærða örorkumats einungis tvö ár í ljósi þess að kærandi væri í 80% vinnu á starfssamningi og að hann hefði nokkrar launatekjur. Tryggingastofnun taldi því rétt að endurmat færi fram að tveimur árum liðnum þar sem að litið væri svo á að um tilraun til vinnu væri að ræða hjá kæranda og að færniskerðing færi því hugsanlega minnkandi.

Ákvörðun Tryggingastofnunar um gildistíma örorkumats er byggð á því að kærandi sé með vinnusamning og því hafi gildistími matsins verið ákvarðaður einungis í tvö ár. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur mjög ólíklegt að sú staðreynd að kærandi sé með vinnusamning öryrkja um hlutavinnu muni hafa áhrif á mat á örorku hans. Fyrir liggur að heilsufar kæranda hefur ekki breyst til batnaðar frá því að kærandi fékk fyrst samþykkt 75% örorkumat. Í fyrrgreindum læknisvottorðum C og B kemur fram mat þeirra að færni kæranda muni ekki aukast með tímanum. Í ljósi þess að gildistími síðasta örorkumats kæranda var ákveðinn til fimm ára telur úrskurðarnefnd rétt að núgildandi mat skuli einnig ákvarðað til fimm ára.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er felld úr gildi sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. maí 2023, að gildistími örorkumats kæranda skuli vera frá 1. júlí 2023 til 30. júní 2025. Gildistími örorkumatsins skal vera frá 1. júlí 2023 til 30. júní 2028.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um gildistíma örorkumats A, er felld úr gildi. Gildistími örorkumatsins skal vera frá 1. júlí 2023 til 30. júní 2028.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum